Færsluflokkur: Tónlist

Topppopp

mgg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Löngu tímabært...Topppopp!

Art Duo – About Time.

Lög:

Midnight Café,

Cool It,

Kairo,

1982,

Forever And Always,

Only Time Will,

You‘re The One,

Say No More,

Soldier,

Over And Over,

Time.

  „Minningavélin er ræst og tekið á loft...“ Sviðið er Samkomuhúsið á Akureyri, árið ekki alveg á hreinu, en líkast til 1984 eða 1985. Fimm myndarpiltar standa á sviðinu í litfögrum múnderingum eins og bæði fjölskrúðug ljós og reykur hjálpa til að gera þeldekkri og dularfyllri en ella. Þetta voru þeir Kobbi (Jakob Jóhannsson), Tommi (tómas Guðmundsson), Hemmi (Hermann Örn Ingólfsson), Viddi (Kristinn Viðar Sveinbjörnsson) og Siggi (Sigurður Kristinsson) Fjórir fyrsttöldu bekkjarbræður úr Glerárskóla á Akureyri, en Siggi árinu eldri úr sama skóla og þarna hafa þeir hyggur minningin, að þeir séu allir í námi í MA og þarna hafi þeir staðið sem „Nýrómantíska/svuntuþeysabandið“ ART!

  Það verður seint sagt um undirritaðan, að hann hafi á þessum tíma fallið í stafi fyrir músík sem þessari, var miklu meir á harðari rokk og gáfumannapopprokklínunni. En hins vegar varð maður jú samt að standa með „bræðrum sínum“ þeir fjórir fyrstnefndu nefnilega líka skólabræður hans og þess vegna ekki síst var hann staddur þarna ásamt allavega 50 – 100 manns til að hlýða á. Nú um það bil þrjátíu árum síðar, getur maður þó alveg viðurkennt að eitt og eitt lag náði auðveldlega inn og raunar varð ein fræg plata þessa tíma með Human League að eign með hinum dúndrandi „Don‘t you want me baby“ m.a.! Girls On Film með Duran Duran varð sömuleiðis „eyrnagaman“ og þá auðvitað ekki hvað síst líka fyrir ógleymanlega myndbandið við það. Og ekki má svo gleyma Ultravox, sem raunar hafði þó víðari skírskotun eins og fleiri góðar sveitir á svipaðri línu á borð við Spandau Ballet og Level 42, að ógleymdri Depeche Mode.

  Á þessar sveitir margar og ugglaust fleiri hlustuðu strákarnir og drukku í sig áhrifin. En þarna í árdaga, held ég þó að það hafi verið fyrst og fremst Tommi söngvarinn, sem sá um tónsmíðarnar og ásamt Sigga, en að mestu einn um textana Og þegar þarna var komið sögu, voru strákarnir óðum að skapa sér nafn og útgáfa á heilli plötu í sjónmáli, eða allavega á fjögra laga slíkri EP. En margt fer öðruvísi en ætlað er... Safnskífulag, en síðan ekki meir...Þar til nú! Nú man ég auðvitað atburðarásina ekki í þaula þó ég hafi nokkuð svo fylgst með drengjunum, nema hvað að plata var semsagt í bígerð þar sem Jón nokkur Gústafsson, alltíöllustjarna á þessum tíma var að eiga við drengina. (Jón var t.d. umsjónarmaður sjónvarpsþáttarins vinsæla, „Rokkararnir eða Rokkarnir geta ekki þagnað“ en nú ku hann vera kontóristi hjá Kára frænda mínum hjá ÍE) Útkoman varð hins vegar minnir mig bara eitt lag, Take My Hand á einhverju safnplötutetri, en síðan vart söguna meir nema jú þetta myndband tekið í MA og skartaði skvísunni Örnu Einars... Og þannig líða tímar fram eða þar til fyrir einhverjum fimm eða sex árum kannski. ART piltar enn svosem sprækir og halda enn vinskapinn eftir öll þessi ár, hittast reglulega, en spilamennska eða þráðarupptaka ekki á dagskrá. En í honum Kobba blundar eitthvað sem kalla má Dellugenið, hann tekur allt í einu upp á því að kaupa sér aftur gítar og sannfærist í kjölfarið á að hann geti enn spilað á hann. Svo vita menn ekki fyrr til en drengurinn er bara búinn að koma sér upp hágæða hljóðveri heima í bílskúrnum í Mosó og þá fer aftur að kvikna í „plötuneistanum!“ í honum svo um munar. Þeir Tommi byrja svo tveir saman fyrir þetta fjórum eða fimm árum að krunka saman og nú bregður svo við að Kobbi uppgötvar tónskáldshæfileika sína ofan í hina landsfrægu lista- og hönnuðar. Og núna loksins er hringnum lokað og ekki ofsagt að löngu hafi já verið kominn tími til, sköpunarverkið fætt í formi 11 laga geislaskífu! En ekki undir einföldu nafni Art eins og forðum, heldur í samræmi við staðreyndir dagsins, sem Art Duo auk þess sem það finnst víst eitthvert sveitardrasl annars staðar sem kallar sig Art. Kemur satt að segja gríðarlega á óvart.

  Nú skal það viðurkennt fúslega, að maður átti svosem ekki von á neinu stórvirki er gripurinn barst í hendur fyrir nokkrum vikum í sinni nöktu hljóðmynd frá drengjunum og það þótt maður hafi aftur heyrt hið flotta Midnight Café fyrir sl. Jól. En maður lifandi... Eftir að hafa nú lagst að alvöru yfir gripinn fyrir um hálfum mánuði, þá er ég vart sannur maður núna...eða þannig. En frómt frá sagt, þá er About Time í það heila asskotansfogginsnilld, uppfull af alveg dæmalaust flottum og grípandi laglínum í nánast öllum tilfellum! Jájá, auðvitað þó í sínum níunda áratugar anda ekki freyðandi beinlínis af frumlegheitum, en í sínum ramma bara svo ofboðslega flott. Og þegar ég segi flott, þá meina ég FLOTT. Hljómurinn á plötunni er í einu orði sagt afbragð og flutningurinn sömuleiðis. Enda ekki að undra, hjálparkokkarnir verða nefnilega vart betri, Mezzofortetakttvíeykið Gulli Briem á trommum og Jóhann Ásmunds á bassa, Friðrik Sturlu hljómborðs og bassakall úr Sálinni, þórir Úlfars Altmugligman með hljómborð, Saxasnillingurinn margræði Sigurður Flosason og fjölhæfnisfljóðið Gréta Salóme, sem landinn getur auðvitað vart gleymt síðan í Evrovision 2012? Jújú, ég er hlutdrægur, vissulega bullandi hlutdrægur, en dreg ekkert af mér, platan í öllum mínum heiðarleika og hreinskilni...Vúnderbar! Svo er það tvennt dulítið skemmtilegt og kannski „klikkað“ Allt frá því Tommi 16 ára gamall rúllaði upp „Jóni kræfa karli og hrausta“ Þursaflokksins, þannig að manni fannst hann bara betrungur nafna hans Tomma Tomm, á bekkjarkvöldi forðum, hefur mér fundist hann þrususöngvari, þó ég hafi nú ekkert rosalega verið að flíka því. Nema hvað, að í tveimur af þessum mörgu flottu lögum plötunnar, 1982 og Only Time Will, fékk ég alveg sérstaka vitrun, nefnilega að litur í röddinni minni mig þrælmikið á engan annan en sjálfan Sör Pál Makkartnei?! Kannski er ég orðinn spinnegal, en samt ekki, texti hins síðarnefnda byrjar nefnilega á „YESTERDAY has past...“ Hitt er svo með gítarleikinn hans Kobba, sem á köflum hljómar eiginlega sem djassblúsaður og minnir mig þá meira á tilþrif til dæmis gamla jálksins Chris Rea frekar en t.d. Andy Taylor! Miklu meir er annars vart á bætandi þessum langhund, önnur lög sem hafa brætt heila minn eru t.d. Midnight Cafe hið áðurtalda og hið magnaða rokkstykki Cool It, þar sem Kobbi fer hamförum. Takk fyrir mig drengir og allir sem þetta sjá og hafa snefil af smekk fyrir poppmúsí, „tékkið á eintaki!“


mbl.is Bruce í stað Bono
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Norrænt - Já takk!

wmftcs

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ýmsir - World Music From The Cold Seas.

  Ekki er svo langt um liðið frá því að Frónbúar voru svo blindir á flest eða allt sem engilsaxneskt var upprunnið, að þeir fussuðu bara helst og sveiuðu ef aðrar tungur og öðruvísi efni var nefnt! Slíkt var nei ekki við hæfi og stimplað nær sjálfkrafa sem rusl. Þannig raddir heyrast jú ennþá og kjánalegir fordómar, en ef við tökum bara sem dæmi sjónvarpsefni, hefur nú þróunin aldeilis snúist við og norrænt efni þaðan orðið eitt það allra vinsælasta sem býðst.

  Norræn tónlist hefur auðvitað verið í náðinni hjá mörgum um langa hríð, en samt hafa menn á sama hátt sett á hana stimpil neikvæðan og þá sérstaklega ef hún hefur verið flutt á móðurmáli flytjendanna. Einhvern tíman setti ég sjálfur stundum slíkt fyrir mig, en ekki lengur og það hygg ég að þeir sem í alvöru hafa áhuga og ánægju af tónlist, geri nú í minna mæli!

  Nú skömmu fyrir jólin læddist inn um lúgu hjá mér skífa nokkur sem eftir því sem tíminn líður og meira er hlustað, verður meira og meira skemmtileg og góður vitnisburður fyrir sinn (þjóða)hatt! Um er að ræða 16 laga Vest-norrænu safnskífuna World Music From The Cold Seas, er inniheldur fjögur tóndæmi í flutningi listamanna frá jafn mörgum þjóðum, Íslandi, Færeyjum, Grænlandi og lendum Sama!

Nukaaka Motzfeldt - Drum Dance for Rasmus (Grænland)

Kristian Blak - Addeq 2 (Færeyjar)

Tryggvi Hansen - Ólafur Liljurós (Ísland)

Elín Kaven - Aibbas Jaska (Samaland)

Margrét Örnólfsdóttir - Vélsög (úr kvikmyndinni Einkalíf)(Ísland)

Samma Samma - Qinnut (Grænland)

Skáldi - Taxi Driver (Samaland)

Shalder - Trana Trýta (Færeyjar)

Jens Guð - Fjallgangan (Ísland)

Sume - Upernaaq (Grænland)

SámiLuondu Collerisku - Gidda (Spring) (Samaland)

Kristian Blak & yggdrasil (með Eivör Pálsdóttur) - The Eagle (Færeyjar)

Johann Anders Bær - Gáhttaráiggi (Samaland)

Klakki - Fæding Máfsins II (Ísland)

Nanu Disco - The Drum-The Drum (Grænland)

Týr - Ormurin langi (Færeyjar)

  Ansi fjölbreytt flóra þarna á ferðinni, meira og minna rammþjóðleg, ný lög í bland við eldri og kunnari, samanber hinn geysivinsæla Orm Víkingarokkaranna í Týr (svei mér ef lagið var bara ekki það alvinsælasta hérlendis um langt skeið?) þjóðbraginn gamla um Ólaf (í frábærum flutningi Tryggva o.fl.) og rappsins/"Mæltafmunnifram" útgáfu Jens Guð af kvæði Tómasar Borgarskálds, Fjallgöngu. Áður hafði Jens auðvitað eins og margur man, heldur betur hrist upp í landanum með annarri slíkri túlkun og afbragðsgóðri, á Þorraþræl Kristjáns Fjallaskálds Jónssonar. Jens á svo stóran þátt reyndar í plötunni ásamt þeirri mjög svo gagnmerku útgáfu Tutl í Færeyjum, sem borið hefur hitann og þungann af "færeysku útrásinni" í rokki og poppi sl. árin, komið m.a. út með plötur með Týr, Eivör, Teiti að ógleymdri fyrri plötu okkar eigin ástsælu Víkingaþungarokkssnilldarsveitar, Skálmaldar! Nú svo er þarna hin goðsagnakennda grænlenska sveit Sume með að ég held nokkuð gamalt lag, hressilegt popp með grænlenskum blæ í grunninn. Þau Elín og Johann Anders frá Samalandi eru bæði með gríðarfín lög, hennar ansi seiðmagnað bæði og kraftmikið, minnti mig í senn á eitthvað í anda Bjarkar og eitthvað svona austrænt í taktinum. Hans þjóðlegra en þó skemmtilega djassskotið. Hin íslensk-danska Klakki er þarna sömuleiðis með ansi flott lag er hreif mig vel og þannig mætti telja fleiri lög af plötunni. Síðan má ekki láta hins merkilega færeyska músíkfrömuðar, Kristian Blak, ógetið, en ekki aðeins gefur hann plötuna út sem eigandi Tutl, heldur kemur hann við sögu allra hinna færeysku laganna og gaf auðvitað Týr út á fyrri stigum. Stórmerkilegur maður og áhrifamikill! Þessi eftirfari hinnar mögnuðu og rokkuðu Rock From The Cold seas kemur mér satt best að segja mjög þægilega á óvart, vel heppnað samsafn í alla staði í öllum þeim ólíku tónmyndum sem þar birtast. Merkilegur menningarvitnisburður um hve margt er að finna hjá þessum fjórum ólíku en menningarríku þjóðum í norðri!


Blúsinn er blessun....ekki bölvun!


Blússveit Þollýjar – My Dying Bed.

Þótt þjóðsagan um Robert Johnson, eitt helsta goð Blússins, að hann hafi selt djöflinum sálu sína fyrir gæfu og gjörvileika á krossgötunum forðum, lifi enn góðu lífi, vita sæmilega upplýstir menn og öfgalausir, að tónlistin sem svo nefnist er sannarlega ekki af hinu ílla.
Jújú, líkt og í flestum öðrum tónlistargreinum, hafa menn notað kræfa og krassandi texta og Blúsinn þar ekki hvað síst verið beitt tjáningarform í samskiptum kynjanna sem öðrum tilfinningaefnum. Og það hefur ekkert verið síður í þágu gleði og glaums en beins trega, eins og nafnið þýðir þó og margur telji að skilja eigi bókstaflega.

Fyrir ekki svo mörgum árum vakti það nokkra athygli er hingað kom Blúsmaður frá Chicago og hélt tónleika hjá Hvítasunnukirkjunni m.a. Glenn Kaiser heitir hann Man nú ekki lengur frekari deili á honum, en tónleikunum var útvarpað svo undirritaður heyrði og fannst honum ansi mikið til koma. Í stað texta um “litlar rauðar unghænur sem lystugt væri að snæða” og álíka tvíræðni, voru hins vegar komnir guðræknissálmar, lofgjarðir til hans og heillags sonar , Jesú Krists! Blússtefin voru þó kunnugleg og ekki vantaði stuðið.
Svo er einmitt upp á teningnum með Blússveit Þollýjar Rósmunds á plötunni þeirra, My dying Bed, er sá dagsins ljós fyrir jólin, á köflum nokk kraftmikill Blús með léttari tilbrigðum í bland þar sem mörgum kunnuglegum óð hefur verið snúið upp í lof til Himnaföðursins.
Og fyrir tónleika GK, hitaði sveitin einmitt upp allavega einu sinni fyrir um sjö árum.
Auk Þollýjar eru nú í sveitinni þeir Magnús gítarleikari, Jonni bassaleikari og Benjamín trommari, en á ferli hennar sem spannar nær áratug hafa ýmsir fleiri komið við sögu, m.a. engin önnur en Lay Low, Lovísa Sigrúnardóttir og spilaði á bassa.
Ég hef nú lengst af þeim tíma sem ég hef skrifað um tónlist þ.m.t. að dæma plötur, ekki verið mikið gefin fyrir beinar einkunagjafir, hef reyndar ekkert á móti þeim, en mitt álit mótast hins vegar fyrst og síðast hversu mikið þær ná að grípa athyglina, skemmta manni þannig að viljinn verður eindregin að spila aftur og aftur.
My Dying Bed fær því enga einkun hér í tölum eða stjörnum, en skemmst er frá því að segja, að ekki þurfti mjög mikla hlustun til að koma mér í ljómandi gott skap og þá ekki hvað síst vegna þess hve hressilega kraftmikil platan reyndist mestmegnis og gleðirík.
Það má örugglega deila um hversu platan er vel unnin og/eða hversu góð hljómgæðin eru á henni, en það skiptir mig nú minnstu mér finnst hún bara þrusufín og þá m.a. vegna vel sjóaðarar raddar Þollýjar og hrás gítarspilsins hjá Magnúsi, sem bendir nú reyndar til að hann eigi rætur í rokkinu og þá af þyngra taginu. Svo mun hygg ég líka eiga við um takttvíeykið J og B og allir munu þeir hafa komið víða við, í fleiri en einni sveit.
Allavega tveir gestir koma svo við sögu og spila held ég í sitt hvoru laginu, gítarleikarinn Sigurgeir Sigmundsson (m.a. í Start forðum) og góður kunningi og félagi, Sigurður Ingimarsson, sem við norðlendingarnir vitum að bæði er afbragðsgóður söngvari og gítarleikari, en bregður hér hins vegar fyrir sig munnhörpuleik í lofsöng um “Manninn frá Gallileu!” Siggi þar ansi snaggaralegur, en sem margir vita er hann nú dagsdaglega í þjónustu drottins, kapteinn hjá hjálpræðisherrnum í Reykjavík.
Vil annars ekki taka út nein lög sérstaklega, en þau eru blanda af Blús- og sálmasöngs/gospelmeiði í oftar en ekki kraftmiklum útsetningum.Eru tvö lagana held ég frumsamin.

Útgáfa á íslenskum plötum með rótarmúsík var annars nokkuð svo gróskumikil á sl. Ári, má þar nefna auk BÞ, plötur með Blúsmönnum Andreu, Sigga “Kentár” Sigurðssyni, Lame Dudes og síðast en ekki síst Sollu Soulful, er ekki hvað minnst vakti mína athygli. Vonandi verður bara framhald á þessu, fyrir mína parta er alltaf spenningur að heyra af nýjum plötum af því taginu.


Ísgerður Eðalsnót!

Já góðir hálsar, Ísgerður Elva frænka mín er frábær og margt væri hægt að gera vitlausara en að gefa þessari plötu hennar tækifæri!
mbl.is Bara plata barnaplata
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Röddin ómar, en...!

Dylan, Robert Zimmerman, er auðvitað einn allramerkasti tónlistarmaður tuttugustu aldar, allavega í heimi söngvaskálda af hvíta kynstofninum!
En seint hefur hann nú verið sakaður um raddfeguðr eða blíðan söng, en er auðvitað miklu frekar stílisti og túlkandi á sinn sérstaka hátt!

Að Dylan er dálítið spes,
drengur ég auðvitað veit.
En röddin og frægðar hans fés,
finnst mér nú minna á geit!


mbl.is Rödd Dylans ómar í Kaupmannahöfn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Arfavitlaus og vond tölfræði og samanburður!

Æ, kveinka mér hreinlega undan að lesa þetta! Skil ekkert í því að stofnun eins og Hagstofan skuli standa í því að klambra þessu saman, vitandi vits hefði ég haldið, að gæti ekki innifalið réttar tölur og samanburð?! Ef ég væri í stuði, gæti ég setið hérna lengi og kafað í gömul gögn sem ég á um þessi efni í víðum skilningi, en nenni því ekki auk þess sem ég hef svo oft gert það áður. Tvennt þó. Strax er tekið fram, að í þessar tölur vanti alveg sala yfir netið, en samt er hérna fram og til baka reifaður mismunur á "hljóðritun" og talað eins og um staðfestan samdrátt sé að ræða í sölu þeirra?! Síðast þegar ég vissi er lag eða heil plata áfram hljóðrit þótt ekki hefði verið um þrykkingu á plast að ræða með tilheyrandi plasthylki og bæklingi með. Hér er því aðeins um eðlis- og formbreytingu á sömu vöru að ræða, tónlist á stafrænu formi og meðan menn hafa ekki tölur um sölu hennar yfir netið eða öðrum leiðum en í gegnum verslanir sömuleiðis, er bara ekki hægt að vera með fullyrðingar um samdrátt og það þótt færri plasthylki hafi selst. Svo er þa hins vegar þessi stórfurðulegi heildsölusamanburður og tölur í því sambandi! Það er hrenlega út í hött að gera slíkan samanbuðr eða treysta slíkum tölum að þeirri einföldu ástæðu, að framundir þetta hefur framleiðsla, útgáfa og sala á íslenskri tónlist meira og minna um margra ára skeið, verið á SÖMU HENDI, sömu aðilar hafa meira og minna verið allt í kringum borðið, átt upptökuverin, útgáfurnar, verið dreifingaraðili/heildsali og smásali, að því ógleymdu að vera líka að stærstum hluta eigandi útgáfuréttar! Ósköp lítið eða í raun ekkert því að marka þær tölur sem og flestar í fréttinni.
mbl.is Niðurhal af netinu hefur áhrif
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skrum!

Jamm, í einu orði sagt, er hjartanlega sammála gömlu leikgyðjunni Liz Taylor!
Kaninn gerir fátt verra ef nokkuð, en að setja slíkt innihaldsleysi á svið þar sem slepjan er hreint yfirþyrmandi!
Alveg burséð frá hversu merkilegur eða ekki tónlistarmaðurinn MJ var, snillingur eða ekki, ofmetin eða ekki, ömurlegur aumingi haldin barnagirnd eða ekki, þetta er meira en fullmikið af hinu góða!
mbl.is Þúsundir fésbókarfærslna á mínútu um kónginn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allir að fagna með EIKANUM!

Já, allir sem vettlingi geta valdið,ljúfur og góður drengur hann Eiríkur, sem ég kynntist fyrst fyrir rúmum tuttugu árum, prúður og algjörlega laus við stjörnustæla!
Á meir en skilið að fólk hópist nú og fagni með honum á þessum tímamótum og það þótt það sumhvert hafi fengið um tíma ofnæmi fyrir sumum lögum sem hann hefur sungið og einmitt á borð við Gaggó Vest hans Gunna Þórðar!
mbl.is Rokkað í hálfa öld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Skömmustulistinn" minn og MJ!

Minn gamli félagi hann Bubbi, (bubbinn.bloggar.is) birti um daginn fróðlegan lista úr tímaritinu fræga Rolling Stone, yfir sveitir sem margur hefur dáðst af í laumi að sögn, en ekki farið of hátt með.Kallast þetta á útlenskunni "Guilty Pleasure", sem ég kalla bara "skömmustu" svona stutt og laggott.
Datt svo bara í hug að gleðja strákin og senda honum svona lista, með ýmsum flytjendum og lögum er mér fannst eiga við og komu upp í hugan að þessu tilefni.
Michael Jackson var einmitt eitt nafnið, eins og lesa má hér að neðan, en vart hafði ég sent Bubba listan og hann birt, en garmurinn snéri upp tánum! Kenni mér þó ekki um, en þetta var ansi örlagaríkt að rifja þetta upp með hann og fleiri, eða þannig!
Annars er fréttaflutningurinn nú eftir dauða hans og viðbrögðin víða, t.d. hér á blogginu, alveg yfirgengileg og ofurviðkvæm, svo hálfa af því hálfa væri nóg!Lítið hins vegar við því að segja og fólk verður bara að fá að haga sér kjánalega ef það vill!

Þegar ég hugsa til baka er ég á efri efri barnsárum, ef svo má taka til orða og síðan unglingsárum, var að mótast í mikin harðrokkara er hlustaði mest á Heep, Purple, Zeppelin og síðan Slade, Black SAbbath og Iron maiden o.s.frv. koma furðulega mörg lög jafnframt upp í hugan, sem gripu mann líka, en hreinlega DAUÐASYND hefði verið að láta vinina vita af!
Hérna koma nokkur, ekki þó í neinni sérstakri tímaröð, man árin heldur ekki svo glöggt eða útgáfuár laganna.

Tina Charles - I Love To Love.
-Man vel enn þann dag í dag, er einn bræðra minna kom með plötuna með þessu lagi og byrjaði að spila daginn út og inn! Bölvað diskó auðvitað, en viðurkenni nú, að ekki aðeins fékk maður þetta lag á heilan, heldur fannst sveininum unga söngkonan svo sæt!

Dr. Hook - Sylvia's Mother.
-Hef aldrei skilið það, en þetta helv. væmnislag lét mig bara ekki í friði mitt í rokk og bárujárnsupplifunum,eins og flest lögin hérna allt eldri bræðrum að kenna að þetta gerðist!

ABBA - hellingur af lögum, t.d. Fernando, Vúlli vú, Arrival, Money, Money, Money..o.s.frv.
- Hygg að margir hafi sömu sögu að segja,maður mátti ALLS EKKI viðurkenna að þetta annars fína popp ætti möguleika upp á pallborðið, þvert á móti var það mikill "töffaraskapur" að blóta þessu "Væluskjóðupoppi" En, ég laumaðist svo líka á myndina þarna um árið, hundleiðinleg reyndar, nema hvað eins og með tinu, stelpurnar voru svo sætar!

Human League - Don't You Want Me Baby.
-maður gat í orði þolað þetta á unglingaböllunum, en maður lifandi, þetta var eitt allramesta draslið! og raunar finnst mér þetta frekar þunnur músíkþrettándi í dag, en þetta lag og nokkur önnur sitja samt enn í huganum.

Judy Garland - Somewhere Over the Rainbow.
-Held að hefði einvher félaganna vitað að undir þessu lagi felldi ég tár harðjaxlinn, gjörsamlega heillaður ef ég slysaðist til að heyra þetta, þá hefði ég líkast til orðið fyrir alvöru einelti!
En mörg orð þarf ekki að hafa um þetta, með sígildari lagaperlum amerisku söngvamyndanna, úr Galdrakarlinum í Oz!

Þú & ÉG - Í Reykjavíkurborg.
-Svipað og með tinu Charles, fékk þetta diskó Gunna Þórðar bara á heilan, skil ekki hvers vegna enn í dag auk þess að verða skotin í Helgu Möller! (urðu annars ekki flestir stráklingar það á þessum árum?)

10cc - svipað og með ABBA, fullt af lögum sem urðu vinsæl, (flest þó af plötunni þarna með kafaranum framan á með drukknuðu stelpuna í fanginu, man ekki nafnið bubbi og man laganöfnin reyndar fæst líka nema á hinu frábæra Wall Street Shuffle, sem var þó ekki á þessari plötu held ég!)

Foreigner - I've Been Waiting For A Girl LIke You.
- Já, ehem, þetta annars ofurvinsæla lag gerði mann alveg grænan á endanum, stundum spilað hundrað sinnum, en var svona á jaðrinum að mátti viðurkenna hrifningu á eða að manni þætti söngvarinn "Raddmjói" flottur. Þó þótti í það heila ekki svo hallærislegt að hrífast af hljómsveitinni.

Roxy Music - Dance Away.
-Man hversu leiðinleg og asnaleg þessi sveit þótti, en þetta lag tók mig með trompi, bræðradæmi, en held ég hafi ekki heyrt lagið fyrst fyrr en nokkru eftir að það kom fyrst út.

Jóhann G. - Don't Try To Fool Me.
-Eitt af flottustu íslensku popplögunum frá upphafi, frábært lag, en það fór nú ansi hljótt um hrifninguna á unglingsárunum og hún mátti ekki vitnast.

BA Robertson - Flight 19
-Skoski háðfuglinn þótt nú bara hálfvitalegur minnir mig í félagahópnum, en þetta lag og fleiri heilluðu mig nú og platan þessi auk annarar á eftir ef ég man rétt.

Michael Jackson - Billie Jean & Beat It
-þarf nokkuð að útskýra þetta frekar, nema hvað að menn gáfu sjéns vegna Stevie VAi og síðar Steve Stevens, enenen, að sýna MJ sjálfum einhverja aðdáun, tja, það þótti bara vont mál! (og þykir nú reyndar enn!)


mbl.is Lík Jacksons flutt til Neverland
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Omar er minn maður, Blússnillingurinn frá Texas!

Ég hef ekki verið of duglegur við að setja á blað línur um eitt af mínum helstu hugarefnum og sálar hvað mest upplífgandi, blúsinn og rokkið í bland, en þetta er smá bragarbót á því, um merkan mann og nnýjasta verk hans! Omar Kent Dykes er sannarlega einn af mínum uppáhalds í blúsnum og hefur verið það meira og minna í yfir tuttugu ár, eða frá því ég uppgötvaði hann fyrst með plötunni með íhugula nafnið (og sem svo sannarlega getur átt við litla Íslandið okkar bæði fyrr og nú!) Hard Times IN The Land Of Plenty! Omar er upprunnin eins og svo margur góður krafturinn frá Mississippi, en hefur hygg ég lengst af síns ferils gert út frá blúsborginni frægu með meiru, Austin í Texas! Hann fellur því sannarlega og hefur tilheyrt Texasblúsnum, sem oftar en ekki er litaður af rokki og melódiskum laglínum og mætir t.d. Suðurríkjarokkinu sumpart á miðri leið m.a. Omar er í dag með virtari mönnum og vinsælli í sínum geira og þá ekki hvað s´síst í Evrópu, þangað sem hann fer reglulega í tónleikaferðir og hefur hljóðritað eina fína tónleikaplötu. Undir eigin nafni og sveitar sinnar The Howlers eru plöturnar komnar vel á annan tuginn, en sú fyrsta kom út minnir mig 1980 og nefndist Big Leg Beat!án Howlers eru skífurnar einnig nokkrar auk þess sem garpurinn, söngvarinn og gítarleikarinn, hefur gert skífur í samfloti með öðrum. 2007, kom einmitt ein afburðagóð slík út frá honum í samfloti með ekki ómerkari snilling en Jimmie Vaughan, fyrrverandi gítarleikara í The FAbulous Thunderbirds og og bróður annars látins snillings og enn frægari reyndar, Stevie Ray Vaughan! Á þessari plötu heiðruðu þeir minningu hetjunnar fornfrægu Jimmie Reed og nefndist platan On The Jimmie Reed Highway! Skemmst frá að segja, einkar vel heppnað verkefni þar sem ýmsir fleiri félagar og vinir komu við sögu, m.a. Kim Wilson (söngvari og munnhörpuleikari úr T-birds) söngkonan LouAnn Barton (sem "heimsfræg" varð á Íslandi og vinsæl fyrir að syngja Gevaliakaffiauglýsingalagið Shake A Hand fyrir vel rúmum áratug og sjálfsagt margir muna enn!) og gítaristinn og upptökustjórinn með meiru, Brendan O'Brien (einnig meðlimur í TEXMEXsveitinni skemmtilegu Texas Torrnados) Nú tveimur árum síðar er sumpart sporgönguskífa þessarar nýbúin að líta dagsins ljós undir nafninu Big Town Playboy, eftir samnefndu lagi eftir Eddie Taylor, sem einmitt var góður félagi Reed!Munurinn þó sá, að annars vegar er þessi nýja þó aðeins skráð á Omar og lögin sem við Reed eru kennd aðeins tvö hygg ég. SAma meginsveit er þó þarna og sömuleiðis Jimmie, LouAnn og O'Brien! Svo eru þarna gestir ekki ómerkari en t.d. Laxy Lester og aldna munnhörpuhetjan James Cotton m.a. líka. Þá hefur Omar sama háttin á og síðast, lætur sér nægja að syngja, en það er eins og með góð vín að sagt er, hann batnar bara með aldrinum og röddin ekki bara svona "Úlfsómandi" (eða Wolfman, eins og Kaninn kallar slíka dimmraddaða en "gólandi" söngvara) eins og hún var framan af. Og svei mér, big town Playboy er litlu síðri en forverinn, bara algjör og endalust ánægja fyrir gallharðan blúsunnanda á borð við mig! Enn ein gæðaplatan frá Omari, en aðrar sem nefna má og eru afbragðs líka, eru t.d. Monkey Land, Wall Of Pride, Southern Style og Boogie man, þar sem hann er ásamt The Howlers (súð síðastnefnda jafnframt sú nýjasta með þeim) og einherjaskífurnar Blues Bag og Muddy Spring Road! Má tvímælalaust mæla með þessum plötum öllum fyrir þá er hafa ánægju af rótartónlist og rokki ýmis konar, en þær flestar ef ekki allar og fleiri góðar til, má hygg ég fá í gegnum póstverslun Amazon til dæmis. Omar Kent Dykes Big Town Playboy 1. Big town Playboy 2. Upside your head 3. Can´t judge nobody 4. Think 5. Mary, Mary 6. No More Doggin´ 7. Hello Mary Lee 8. Close together 9. Dream girl 10. Since I Met Your Baby 11. Man down There 12. King Bee

Næsta síða »

Um bloggið

Pælt um heima og geima

Höfundur

Magnús Geir Guðmundsson
Magnús Geir Guðmundsson
Áhugamaður um flesta hluti.

Nýjustu myndir

  • wmftcs
  • mgg
  • ...mg2_251805
  • ...mg2_251804
  • ...mg2

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 6
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband